Dagsferðir

Margir markverðir staðir og náttúruundur eru staðsett í innan við dagsferð frá Laugarhóli. Hér nefnum við nokkur dæmi en vinsamlegast hafið í huga að aðgengi að sumum þessara staða takmarkast af veðráttu og færð á hverjum árstíma.

Nesströnd

Skemmtileg leið til að kynnast fuglalífi og flóru svæðisins er ferð á Nesströnd. Ef heppnin er með þér gætirðu séð ref eða jafnvel séð hvali að leik út af ströndinni. Áhugaverðar steinmyndanir er að finna ef gengið er örstutt upp frá ströndinni.

Krossneslaug

Þessi fallega, litla jarðvarmalaug er staðsett í 66,05" norður og er því staðsett norðan heimskautabaugs. Krossneslaug er góður staður til að slaka á eftir aksturinn norður Árneshrepp og góður miðpunktur á ferðalaginu, áður en haldið er til baka.

Á góðum degi gefur Krossneslaug útsýni að endimörkum jarðar, að því er virðist og ekki er óalgengt að sjá hvali leika sér í sjónum rétt við fjöruborðið.

Djúpavík

Í fallegum firði norðan Bjarnarfjarðar er að finna leifar lítils sjávarþorps og síldarvinnslu. Þetta er hin sögufræga Djúpavík á Ströndum.
Hér er að finna hótel sem býður upp á leiðsöguferðir um þorpið og yfirgefnu síldarverksmiðjuna, en þegar hún var byggð var hún talin eitt helsta afrek Íslenskrar byggingarsögu.

Djúpavík er á leiðinni í Krossneslaug (sjá hér ofar).

Hólmavík

Fallega litla sjávarþorpið við sunnanverðan Steingrímsfjörð hefur upp á ýmislegt að bjóða. Hér búa um 450 manns og hér er að finna bensínstöðvar, matvöruverslun, sundlaug, Galdrasafnið, veitingastað og hoppibelg fyrir börn á öllum aldri.

Drangsnes

Við norðanverðan Steingrímsfjörð liggur lítið sjávarþorp sem virðist við fyrstu sýn afskaplega opið fyrir veðrum og vindum. Hér er þó að finna skemmtilega sundlaug sem hituð er með jarðvarma og einnig er búið að koma fyrir heitum pottum niðri við sjó á Drangsnesi en í þá rennur heitt vatn úr uppsprettu sem er skammt frá þeim. Hér er gott að slaka á eftir langan dag og horfa út á hafið.

Grímsey

Við minni Steingrímsfjarðar, rétt utan við Drangsnes liggur myndarleg og virðuleg eyja. Hér er afskaplega mikið fuglavarp og hægt er að sigla út í eyjuna til fuglaskoðunar. Meðal fugla sem hægt er að sjá hér er lundi og ef heppnin er með þér gætir þú rekist á haförn.
Leit